PEERS námskeið í félagsfærni
fyrir unglinga á aldrinum 13-15 ára með félagslega erfiðleika, einhverfu, ADHD, kvíða og þunglyndi
Á PEERS námskeiði í félagsfærni er markmiðið að:
• Unglingurinn læri að eignast vini og halda þeim.
• Foreldri læri að styðja ungling í að finna viðeigandi vini.
• Foreldri læri leiðir til að styrkja færni unglings við að eignast nýja vini.
• Foreldri læri leiðir til að efla félagslegt sjálfstæði unglings.
Aðalstyrkleiki félagsfærniþjálfunar PEERS er að námskeiðið er fyrir bæði unglinga og foreldra þeirra. Foreldrar læra hvernig þeir geta haldið áfram og fylgt eftir félagsfærniþjálfun unglingsins eftir að námskeiðinu lýkur.
Um námskeiðið: Námskeiðið er fyrir bæði unglinga og foreldra og er unnið með sama eða svipað efni samtímis í sinn hvorum hópnum. Tekið er fyrir efni samkvæmt PEERS handbók.
Unglingahópnum er kennt í gegnum beinar leiðbeiningar, samræður, hlutverkaleiki, myndbönd og heimaverkefni. Foreldrum er kennt að vera félagsþjálfi unglingsins með því að farið er yfir heimaverkefni í hverjum tíma og fylgt vel eftir hvernig hvert og eitt foreldri leiðbeinir sínum ungling heima.
Unnið er út frá styrkleikum og áhugasviði hvers unglings. Í lok hvers tíma koma hóparnir tveir saman í 10 – 15 mínútur og heimaverkefni eru skipulögð í sameiningu. Síðasti tíminn er útskrift og þá er afhending viðurkenningarskjala og veitt verðlaun.
Næstu námskeið:
PEERS námskeið í félagsfærni er vikulega í 13 skipti í 90 mínútur hvert skipti. Námskeiðin byrja á hverju ári í janúar og ágúst.
Sendið okkur tölvupóst á felagsfaerni@felagsfaerni.is eða fyllið út skráningarform hér fyrir neðan og sendið, þá setjum við barnið á biðlista fyrir næstu námskeið. Símaskimunarviðtöl eru tekin í desember og júlí á hverju ári. Síðan er barn ásamt foreldrum boðað í inntökuviðtal í janúar eða ágúst. Inntökuviðtal tekur um 30 mínútur.
Í hverjum hóp er 8 – 10 unglingar. Foreldrar þeirra eru samtímis í öðrum hóp. Raðað er í hópa eftir aldri unglinga.

Reynslusaga af dreng
Við erum mjög þakklát fyrir allt sem þið og námskeiðið hefur gert fyrir okkur. Algerlega magnað og ómetanlegt Höfum farið á ótal námskeið með drengnum og þetta er svo langsamlega besta. Lika svo nauðsynlegt fá að taka virkan þátt sem foreldri og fá öll þessi verkfæri.
Finnst þetta námskeið eigi að koma með sem leiðbeiningabæklingur með svona adhd börnum. Já og bara öllum! Ég sjálf lærði ótal marga hluti sem ég nýti mér. Í framhaldi af PEERS námskeiðinu þá var búinn til hjólahópur fyrir þau í samstarfi við Hjólakraft sem endaði með því að fara í WOW Cyclothon, móðirin hafði þetta að segja eftir þá ferð:
Drengurinn minn er komin heim, stoltur, glaður, sáttur, þreyttur og eflaust fleiri lýsingarorð sem eiga vel við. Ég er að rifna úr stolti og svo innilega glöð og þakklát að fá að upplifa með honum þennan sigur. Á hans stuttu ævi hefur honum liðið allskonar, óskað sér heitast að fá að enda líf sitt, sýnt ítrekaða tilburði þess efnis. Aðallega hefur þó líf hans einkennst af krefjandi hindrunum, árekstrum, vinaleysi, niðurbroti, einelti, vera öðruvísi, hunsaður, skammaður, óvelkominn og tilfinningunni ,,að vera einn síns liðs“ eins og hann segir svo oft sjálfur. En í dag sá ég sjálfstraust og trú á eigin getu, það er svo góð tilfinning að sjá hann loks sigra!!!!!
Hann var velkominn frá mínútu eitt, hluti af hóp, samþykktur, mátti vera hann sjálfur. Ég á óendarlega mikið afskaplega góðu fólki þetta að þakka að fá að fylgjast með barninu sínu sem hluta af heild, samþykktan, elskaðan og vel nærðan er dásamlegt. Takk Hjólakraftur, takk Þorvaldur Daníelsson, takk Guðrún, takk PEERS. Þúsund þakkir fyrir minn dreng, hann er yfir sig glaður með ævintýrið og harð ákveðinn að fara aftur að ári, segjr þetta vera það skemmtilegasta sem hann hefur gert. Aldrei á ævinni blómstrað jafn mikið í nokkrurri íþrótt áður.
Takk allir í Hjólakrafti fyrir að taka svona vel á móti honum, hann upplifði sig sem partur af heild, samþykktur eins og hann er og sáttur við allt.
Sérstakar þakkir til þeirra sem byrjuðu þetta ævintýri, Guðrún Jóhanna Benediktsdóttir takk fyrir að kynna okkur fyrir Þorvaldi Daníelssyni og takk Valdi fyrir fyrstu hjólaæfinguna, nú er ekki aftur snúið.
Leiðbeinendur:
Ingibjörg Karlsdóttir félagsráðgjafi og lýðheilsufræðingur MPH með foreldrahópinn.
Guðrún Jóhanna Benediktsdóttir iðjuþjálfi með barna- og unglingahópinn.
Báðir leiðbeinendur hafa setið PEERS námskeið til réttinda fyrir fagfólk.
Sendið fyrirspurnir á: felagsfaerni@felagsfaerni.is
eða hafið samband í gsm, Guðrún Jóhanna Benediktsdóttir 822-0910 og Ingibjörg Karlsdóttir 863-6394.