Hvernig spilin urðu til

Mig langar að segja ykkur frá hugmynd sem ég kom í framkvæmd síðasta sumar. Þessi hugmynd kom út frá því að við Ingibjörg Karlsdóttir höfum verið með PEERS- námskeið í félagsfærni síðan haustið 2016. Í lok hvers námskeiðs fá öll börnin verðlaun/gjöf, sem var bíómiði, fyrir að hafa lokið námskeiði.

Vorið 2020 var COVID komið og því var óviðeigandi að gefa börnunum miða í bíó vegna sóttvarnareglna. Þá var ég líka að fara af stað með fjarkennsluhópa fyrir þá sem búa á landsbyggðinni og ekki passaði að gefa þeim miða í bíó í Reykjavík. Þá datt mér í hug að hanna spil þar sem allar liðsandareglurnar eru á hverju spili. Ég fékk hönnuðinn okkar til að setja upp spilin og ég sendi henni svo þær setningar sem ég vildi hafa á þeim.

Þetta tókst mjög vel, margir vildu kaupa þessi spil og það ýtti mér aftur af stað. Mig hafði lengi dreymt um að gera myndir við allar samskiptareglurnar, þannig að ég næði betur til yngri barna og einnig til þeirra sem þykir gott að hafa allt myndrænt. Ég var búin að hugsa mikið um hvernig myndirnar ættu að vera og hvort væri hægt að fá einhvern til að teikna þær fyrir mig. Eins og svo oft áður þá gleymir maður að líta sér næst, en stjúpsonur minn Jóhann Örn Steinsson er mikill myndlistarmaður. Ég hringdi í hann, bauð honum verkið og hann var til í að gera tilraun. Þessi tilraun hans gekk heldur betur vel, hann teiknaði myndir fyrir öll spilin og í framhaldi af því er hann búinn að teikna fyrir mig næstum því allar samskiptareglurnar. Þegar ég er nú með börnin/unglingana í tíma þá fá þau líka myndræna skýringu á samskiptareglunum.

Grein: Iðjuþjálfinn – fagblað iðjuþjálfa, tölublað 42. árgangur 2021